SÉRSMÍÐI
Sérsmíðin á sérstakan sess í hjarta Gull og Silfurs, þar sem flest allir okkar gripir sem eru til sölu hér í vefverslun og í versluninni sjálfri, eru unnir á verkstæði okkar, engir tveir hlutir eins og hver gripur því einstakt listaverk.
Frá upphafi hafa gullsmiðir fyrirtækisins ætíð verið skapandi listamenn á sínu sviði, smíðað gripi eftir eigin höfði úr flestum eðalmálum sem við þekkjum, skreytt með demöntum og öðrum eðalsteinum eða ekta perlum, hannað og smíðað eftir hugmyndum viðskiptavina eða sérpantana frá stofnunum og félagasamtökum. Meðal sérgreina okkar er handsmíði trúlofunarhringa þar sem hver og einn fær sérstaka meðhöndlun á vinnustofunni. Allt er gert í höndunum svo hvert par hafi sérstöðu og beri okkur fagurt vitni til framtíðar. Sérsmíðuð hálsmen, gullhringar, armbönd og eyrnalokkar skipta þúsundum auk þeirra margvíslegu verðlaunagripa og tímamótagripa sem við höfum sérsmíðað í hálfa öld.
Við hvetjum viðskiptavini okkar eindregið til að velta fyrir sér möguleikanum á sérsmíðaðri gjöf, hægt er að koma til okkar með tilbúna hugmynd, teiknaða eða í stíl við annan grip eða leita til hönnunarhæfileika gullsmiða okkar sem geta aðstoðað ykkur við ferðalagið að hinum fullkomna grip.
Hér að neðan má sjá brot úr sögunni okkar í formi sérsmíði.